Áreiðanleikakannanir

Áreiðanleikakönnun er þjónusta sem PricewaterhouseCoopers innir af hendi fyrir aðila sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta eins og kaupendur félaga, seljendur eða aðra. Áreiðanleikakönnun er ætlað að draga úr áhættu fyrir þann hagsmunaaðila sem í hlut á.

Áreiðanleikakönnun felst í því að kanna fjárhagslega stöðu fyrirtækis, rekstur þess og önnur atriði sem varða sérstaka hagsmuni.

Hvað er áreiðanleikakönnun?
Markmið áreiðanleikakönnunar er að sannreyna og greina upplýsingar sem eru mikilvægar tilteknum hagsmunaaðila við ákvörðunartöku. Mikilvægt er að áreiðanleikakönnun sé unnin af hlutlausum, sérfróðum aðila og að niðurstaða hennar sé sett fram með nægilega skýrum hætti fyrir þann aðila sem hún er ætluð.

Áreiðanleikakannanir geta tekið til margra þátta og sem greina má niður í þrjá fyrirfram skilgreinda flokka:

  • Lögfræðileg áreiðanleikakönnun
  • Fjárhagsleg áreiðanleikakönnun
  • Skattaleg áreiðanleikakönnun

Við gerð áreiðanleikakönnunar er leitað margvíslegra upplýsinga sem varða t.d. fjármögnun fyrirtækis, skattaleg álitamál, lög og reglur sem gilda um starfsemi þess, tryggingamál, rekstrarhorfur, fjárhagsupplýsingar, starfsmannamál o.s.frv. Einnig er litið til þess hvernig framsetning upplýsinga og gagna er háttað frá fyrirtækinu sem er verið að skoða. Markmiðið er að heildstæð mynd fáist af fyrirtækinu við lestur áreiðanleikakönnunar.