Samfélagsábyrgð fyrirtækjaÍmynd, orðspor, starfsánægja, sjálfbærni, langtímamarkmið og aukinn arður eru kjarni samfélagsábyrgðar. Fyrirtæki sem er samfélagslega ábyrgt hugar að félagslegum, umhverfislegum og siðferðislegum þáttum samfélagsins á sama tíma og það treystir grunn sinn, viðskiptaumhverfi og eykur hagnað með því að leggja áherslu á langtímamarkmið fremur en skammtímamarkmið. Samfélagslega ábyrgt fyrirtæki dregur úr rekstrarlegum áhættum með því að stunda ábyrga viðskiptahætti og vernda ímynd sína.

Í júlí árið 2002 varð PricewaterhouseCoopers samningsaðili Sameinuðu þjóðanna um að stuðla að samfélagsábyrgð fyrirtækja. Þetta frumkvæði gengur undir nafninu Global Compact og samanstendur nú af tengslaneti yfir þúsund fyrirtækja, samtaka, háskólastofnana og annarra um allan heim, sem styðja umhverfisleg og félagsleg sjónarmið í rekstri. Kjarni þessa frumkvæðis er sá að einkarekin fyrirtæki, samtök og stofnanir verði hluti af þeim lausnum sem finna þarf við hinum margþátta vandamálum sem alþjóðavæðing hefur leitt fram og leggi sitt af mörkum til að skapa sjálfbærni og efnahagslegan stöðugleika um allan heim.

Áður en við urðum sjálf hluti af Global Compact frumkvæðinu komu Sameinuðu þjóðirnar til máls við PricewaterhouseCoopers og unnum við sem ráðgjafar fyrir Sameinuðu þjóðirnar um hvernig hægt væri að hvetja fyrirtæki og aðrar stofnanir og samtök til að tileinka sér sjálfbærni í ákvarðanatöku. Einnig veittum við ráðgjöf um hvernig hægt væri að bæta skilvirkni Global Compact með því að greina og meta stefnumótun þess og viðskiptahætti.