IPSAS 2013

Niðurstöður könnunar PwC á reikningsskilum opinberra aðila í 100 löndum:


Aukin áhersla opinberra aðila á að bæta reikningsskil sín

 

Stjórnvöld víða  um heim eru mörg hver að taka stór skref til að  bæta reikningsskil sín  og auka gagnsæi en almennt er nú viðurkennt að hefðbundin reikningsskil opinberra aðila þjóna ekki þeim kröfum sem gerðar eru á 21. öldinni.


Könnun PwC leiddi í ljós að meðal þeirra 100 landa, sem könnunin náði til, eru aðeins 26% ríkja sem byggja reikningsskil sín á hreinum rekstrargrunni en það þykir almennt ákjósanlegasti grundvöllur til að byggja reikningsskil á. Samkvæmt sömu könnun hyggjast 37% þessara ríkja færa sig yfir í reikningsskil byggð á hreinum rekstrargrunni innan fimm ára.  Gangi þau áform eftir munu 63% þessara ríkja þá byggja reikningsskil sín á þessum grunni en það er  142% aukning frá því sem nú er.
 

Smellið á myndina til að sjá hana stærri

Ísland var meðal þeirra ríkja sem tóku  þátt í könnun PwC  en reikningsskil íslenska ríkisins  byggja  á takmörkuðum rekstrargrunni, í samræmi við íslensk lög og íslenskar reikningsskilavenjur. Reikningsskilavenjur íslenska ríkisins víkja til dæmis frá hreinum rekstrargrunni hvað varðar meðferð varanlegra rekstrarfjármuna. Samkvæmt íslenskum reikningsskilavenjum er stofnkostnaður slíkra eigna gjaldfærður strax og hann verður til en ekki eignfærður og afskrifaður á áætluðum endingartíma eignanna eins og reikningsskil á hreinum rekstrargrunni gera ráð fyrir.


Meirihluti ríkja heims byggir reikningsskil sín á greiðslugrunni en það er sú meginaðferð sem opinberir aðilar hafa almennt notast við til langs tíma. Reikningsskil á greiðslugrunni byggja á því að færa inn- og útborganir í bókhald þegar þær eiga sér stað.  Gallinn við þessa aðferð er sá að þá koma ekki fram nema takmarkaðar upplýsingar um eignir og skuldir og því gefa reikningsskilin aðeins mynd af fjárhagsstöðunni til afar skamms tíma.  Algengt er að opinberir aðilar byggi reikningsskil sín að hluta til á hreinum rekstrargrunni og að hluta á greiðslugrunni. Samanburður á reikningsskilum opinberra aðila milli landa er ekki alltaf marktækur þótt þau eigi að byggja á sama grundvelli að nafninu til þar sem reglur um reikningsskil eru oft á tíðum útfærðar og þeim beitt á mismunandi hátt.

Smellið á myndina til að sjá hana stærri
 

Til að bæta úr þessu misræmi hefur verið gefinn út alþjóðlegur staðall um reikningsskil hins opinbera, IPSAS (International Public Sector Accounting Standard), þar sem settar eru fram samræmdar og ítarlegar reglur um reikningsskil sem eiga að  henta opinberum aðilum, ríki og sveitarfélögum.  Þessi staðall hefur þegar verið tekinn upp  hjá ýmsum alþjóðastofnunum svo sem  Sameinuðu þjóðunum og OECD og stjórnvöld í ýmsum ríkjum hyggjast innleiða hann hjá sér.  
 

Það er viðurkennt að  raunveruleg  þörf er á meiri  festu og gagnsæi í framsetningu upplýsinga um stöðu hins opinbera. Reikningsskil hins opinbera  ættu að endurspegla að fullu efnahagsleg áhrif pólitískra ákvarðana. Það verður aðeins gert með því að þessir aðilar notist við reikningsskil á hreinum rekstrargrunni.
 

Með því að byggja reikningsskil sín á hreinum rekstrargrunni  undirstrika  stjórnvöld skyldu sína til að ná fram meira gagnsæi og áreiðanleika í upplýsingagjöf og leggja þannig grunn að betri ákvarðanatöku sem ætti að leiða til betri nýtingar á skattfé borgaranna.


„Rannsóknir hafa sýnt að því meira gagnsæi sem lönd viðhafa, því betra lánshæfismat fá þau, þau sýna meiri aga í fjármálum hins opinbera og njóta fyrir bragðið lægri lántökukostnaðar.“ segir Brian Quinn, framkvæmdastjóri hjá Alþjóðabankanum.  Af þessu sést að ávinningur hins opinbera af upptöku reikningsskila  byggðum á hreinum rekstrargrunni getur orðið  risavaxinn þegar til framtíðar er horft.

Smellið á myndina til að sjá hana stærri
 

Skilgreiningar:


Reikningsskil á greiðslugrunni: Í ríkisreikning eru eingöngu færðar inn- og útborganir úr ríkissjóði, þegar þær hafa átt sér stað. Í fjárlögum er eingöngu gert ráð fyrir slíkum inn- og útborgunum.


Reikningsskil á aðlöguðum greiðslugrunni:  Inn- eða útborganir  eru færðar í bókhald innan fjárhagsársins og  í tiltekinn tíma eftir lok þess.  
 

Reikningsskil á takmörkuðum rekstrargrunni:  Rekstrargrunnur er notaður, en vissar eignir, til dæmis varanlegir rekstrarfjármunir eða skuldir eru ekki færðar í efnahagsreikninginn.
 

Reikningsskil á hreinum rekstrargrunni: Í ríkisreikning eru færðar allar skuldbindingar ríkisins um leið og til þeirra er stofnað.  Einnig er stofnverð  varanlegra rekstrarfjármuna  og annarra eigna eignfært þegar þær eru keyptar.  Afskriftir varanlegra rekstrarfjármuna eru færðar sem reglubundin gjöld yfir nýtingartíma þeirra í stað þess að færa allt stofnverð þeirra til gjalda þegar það er greitt. Fjárlög eru sett upp með sama hætti.
 

Ríkisreikningur á Íslandi: Á Íslandi er notuð reikningsskil á takmörkuðum rekstrargrunni, samkvæmt lögum nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins og með stoð í lögum um ársreikninga. Þó er stofnkostnaður varanlegra rekstrarfjármuna færður til gjalda þegar hann er greiddur  en ekki sem gjöld miðað við notkunartíma.  
 

International Public Sector Accounting Standard (IPSAS): IPSAS er reikningsskilastaðall fyrir opinbera geirann, ríki og sveitarfélög. Staðallinn er unninn af Alþjóða reikningsskilaráðinu fyrir opinbera geirann, International Public Sector Accounting Standard Board (ISASB) sem er eitt af fjórum óháðum ráðum sem eru studd af Alþjóðasamtökum endurskoðenda (IFAC).