Nýr framkvæmdastjóri rekstrar

Guðbrandur Sigurðsson hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri rekstrar hjá PwC á Íslandi og hefur hann þegar hafið störf hjá félaginu.

Guðbrandur hefur gegnt margháttuðum stjórnunarstörfum á undanförnum árum. Hann var framkvæmastjóri ÚA á Akureyri (síðar Brims) 1996-2004 og forstjóri Mjólkursamsölunnar á árunum 2005-2008. Árið 2008 stofnaði hann félagið Nýland sem hefur sinnt ýmsum útflutningsverkefnum og ráðgjöf. Samhliða störfum fyrir Nýland gegndi Guðbrandur stöðu framkvæmdastjóra Plastprents frá 2010-2012.

„Ég er mjög ánægður að fá tækifæri til að vinna með því úrvalsfólki sem er hjá PwC auk þess sem ég er spenntur að takast á við þær áskoranir og verkefni sem þetta gamalgróna þekkingarfyrirtæki stendur frammi fyrir“, segir Guðbrandur.

Guðbrandur er með B.Sc. próf í matvælafræði frá Háskóla Íslands og MBA próf frá Edinborgarháskóla. Hann er kvæntur Rannveigu Pálsdóttur lækni og eiga þau þrjú börn.