Að starfa hjá PwC

Um PwC

PwC á Íslandi er hluti af stærsta alþjóðlega endurskoðunar- og fjármálaráðgjafafyrirtæki heims. Gæði þjónustu okkar hefur fært fyrirtækinu samkeppnisforskot á innlendum sem alþjóðlegum vettvangi. Staða okkar byggir fyrst og fremst á afburða hæfileikum og reynslu starfsmanna PwC. Við leggjum því mikið upp úr því að laða til okkar hæfileikaríkt fólk, efla það í starfi og veita því brautargengi innan fyrirtækisins.

Hjá PwC á Íslandi starfa um 100 manns, flestir með menntun í viðskipta- og rekstrarfræðum og/eða löggiltir endurskoðendur. Einnig starfa hjá fyrirtækinu lögfræðingar á sviði skatta. PwC er með starfsemi á fjórum stöðum á landinu, í Reykjavík, á Akureyri, á Húsavík og á Selfossi.

Markmið

Okkar markmið eru að veita viðskiptavinum okkar bestu fáanlegu þjónustu mögulega á öllum sviðum og veita keppinautum okkar verðuga samkeppni. Gildin okkar eru fagmennska - þekking - samvinna.

Starfsumhverfið

Við leggjum áherslu á að starfsfólk okkar fái tækifæri til að sérhæfa sig á sínu áhugasviði innan síns tiltekna fags. Við bjóðum upp á öflugt námskeiðahald innanhúss og hvetjum sömuleiðis til endurmenntunar utan fyrirtækisins. Hver starfsmaður fær handleiðslu hjá umsjónarmanni eða verkefnisstjóra hvers verkefnis.

Við leggjum mikið upp úr því að starfsfólki líði vel í vinnu og á hverju ári fara fram frammistöðusamtöl með mannauðsstjóra.

Siðareglur PwC

Siðareglur okkar lýsa þeim vinnuaðferðum og þeirri hegðun sem við væntum af öllu okkar starfsfólki. Siðareglurnar eru viðauki við þau lög, reglur og innri stefnur sem við störfum eftir. Ástæða þess að við höfum innleitt sérstakar siðareglur er vegna þess að við teljum það mikilvægt að viðskiptavinir okkar, starfsfólk og aðrir hagaðilar skilji hvað við stöndum fyrir og til hvers viðskiptavinir okkar og aðrir geta vænst af okkur.

Hér er hægt að nálgast Siðareglur PwC.

Af hverju að starfa hjá PwC?

Það eru fjölmörg fyrirtæki sem bjóða hæfileikaríku fólki spennandi störf, svo af hverju ættir þú að velja PwC?

Að starfa hjá PwC þýðir að starfa sem hluti af liðsheild með fjölbreyttum, reynslumiklum sérfræðingum. Við krefjumst þess af starfsfólki okkar að það starfi samkvæmt hæstu kröfum og faglegum heilindum. 

Ef þú vilt starfa í krefjandi og spennandi umhverfi íslensks og alþjóðlegs viðskiptalífs, ef það freistar þín að tengjast stærsta fyrirtæki á sínu sviði í heiminum, hafðu þá samband við okkur.

Fylgstu með okkur