Milliverðlagning

Þegar talað er um milliverðlagningu í skattalegum skilningi er átt við það verð sem tengdir aðilar koma sér saman um að gildi í viðskiptum þeirra í milli. Árið 1979 birti Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) fyrst leiðbeiningar um viðskipti tengdra aðila, sem síðan hafa verið þróaðar og betrumbættar. Nýjustu reglur OECD um milliverðlagningu eru frá 1995.

Sérstök ákvæði um verðlagningu og/eða skilmála í viðskiptum milli tengdra aðila komu inn í íslenska skattalöggjöf undir lok ársins 2013. Ákvæði þessi koma til viðbótar reglum um óvenjuleg skipti í fjármálum (armslengdarreglu) sem skattyfirvöld hafa hingað til stuðst við við ákvörðun skattstofna í viðskiptum milli tengdra aðila. Í umræddum lagareglum um milliverðlagningu er tilgreint að ef verðlagning og/eða skilmálar í viðskiptum milli tengdra lögaðila eru ekki sambærileg því sem almennt gerist í viðskiptum á milli ótengdra aðila skuli meta og eftir atvikum leiðrétta verðlagninguna og ákvarða skattstofn eða skattstofna að nýju eftir því hvort verð reynist of- eða vanmetið. Skal í þessum efnum taka tillit til reglna OECD um milliverðlagningu. Með viðskiptum er átt við almenn kaup og sölu á vörum og þjónustu, efnislegum og óefnislegum eignum og hvers kyns fjármálagerninga.

Lögaðilar teljast tengdir í skilningi skattalaga þegar:

þeir eru hluti samstæðu skv. 2. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, eða eru undir beinu og/eða óbeinu meirihlutaeignarhaldi eða stjórnunarlegum yfirráðum tveggja eða fleiri lögaðila innan samstæðu, eða meirihlutaeignarhald eins lögaðila yfir öðrum er til staðar samanlagt með beinum og óbeinum hætti, eða þeir eru beint eða óbeint í meirihlutaeigu eða undir stjórnunarlegum yfirráðum einstaklinga sem eru tengdir sifjaréttarlegum böndum, t.d. einstaklinga í hjónabandi eða staðfestri samvist, systkina og einstaklinga sem eru skyldir í beinan legg. Sama á við um einstaklinga sem tengjast fjárhagslegum böndum í gegnum sameiginleg viðskipti og fjárfestingar. Þeir lögaðilar sem eru með rekstrartekjur yfir einum milljarði króna á einu reikningsári, eða þegar heildareignir eru yfir einum milljarði króna í upphafi eða við lok reikningsárs, eru skyldugir til að skrá upplýsingar um eðli og umfang viðskipta við tengda lögaðila, eðli tengsla og grundvöll ákvörðunar milliverðs. Skjölunarskyldur aðili skal varðveita sérstaklega gögn um slík viðskipti, upplýsingar um viðskiptaskilmála, veltu, eignir og annað sem þýðingu kann að hafa við milliverðlagninguna og sýna fram á verð og skilmála í sambærilegum viðskiptum milli ótengdra aðila eða hvernig verðlagningu er háttað með tilliti til leiðbeiningarreglna OECD um milliverðlagningu. Lögaðili skal staðfesta skjölunarskyldu við framtalsskil og að fullnægjandi skjölun hafi átt sér stað.

Sem fyrr segir er í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, einnig að finna svonefnda armslengdarreglu sem kveður á um að semji aðilar sín á milli í viðskiptum á hátt sem er verulega frábrugðinn því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum, skulu verðmæti sem án slíkra samninga hefðu runnið til annars skattaðilans en gera það ekki vegna samningsins teljast honum til tekna. Hafa skattyfirvöld því jafnframt heimild til þess að endurákvarða það verð sem skuli gilda við ákvörðun skattstofna á grundvalli armslengdarreglu tekjuskattslaga. Þá er í flestum tvísköttunarsamningum sem Ísland hefur gert við önnur ríki svonefnd armslengdarákvæði í samræmi við 9. gr. samningsfyrirmyndar OECD um tvísköttunarsamninga sem tekur á verðlagningu milli tengdra aðila.

Ljóst er að athygli skattyfirvalda beinist í ríkara mæli að viðskiptum tengdra aðila, enda er talið að um 70% heimsviðskipta séu á milli tengdra aðila. Þetta má sjá á því að reglur er varða milliverðlagningu, upplýsingagjöf og kröfur um gögn er staðfesta verðlagninguna er stöðugt verið að herða. Þessi þróun hefur haft þau áhrif að mörg ríki hafa lagt aukna áherslu í laga- og reglusetningu í því skyni að vernda skattstofna viðkomandi ríkis.

Það er óhætt að segja að það sé mikið og krefjandi starf sem stjórnendur fyrirtækjasamstæða standa andspænis í þessum málum, þ.e. að verðleggja samkvæmt viðurkenndum reglum og útbúa gögn og upplýsingar sem sýna fram á að milliverðlagning í þeirra fyrirtækjum sé í samræmi við regluverk viðkomandi lands. Fleiri og fleiri ríki hafa tekið upp skráningarreglur sem kveða á um að fyrirtæki sýni fram á með skýrum hætti og með viðeigandi gögnum að viðskipti innan samstæðu (tengdra aðila) sé í samræmi við milliverðlagningarreglur. Mörg ríki hafa einnig tekið upp sérstakar reglur um viðurlög í þeim tilgangi að fá fyrirtæki til þess að fylgja þeim skráningarreglum sem upp hafa verið teknar.

Hjá PwC eru starfandi lögfræðingar sem eru sérhæfðir í skattarétti, rekstrarhagfræðingar, endurskoðendur og fjármálaráðgjafar, sem veitt geta hverskonar aðstoð og ráðgjöf við skipulagningu og skráningu viðskipta þar sem þörf er ákvörðunar um milliverðlagningu. Vinnan er gjarnan unnin í samvinnu við sérfræðinga PwC sem staðsettir eru um allan heim, en sem kunnugt er, er PwC stærsta þjónustufyrirtæki á sínu sviði í heiminum með fjölda sérfræðinga í ráðgjöf við fyrirtæki við milliverðlagningu og almenna skattaskipulagningu.

Milliverðlagning
Fylgstu með okkur

Contact us

Jón Ingi Ingibergsson

Jón Ingi Ingibergsson

Sviðsstjóri, Skatta- og lögfræðiráðgjöf, PwC Iceland

Sími 550 5342

Hide