Fasteignateymi

Hvað er MiFID?

MiFID er skammstöfun fyrir “Markets in Financial Instrument Directive” eða tilskipun um markaði með fjármálagerninga. Þann 1. nóvember 2007 þurftu fjármálafyrirtæki að hafa gert ráðstafanir til að uppfylla kröfur tilskipunarinnar sem var innleidd í landslög fyrir 31. janúar 2007.

MiFID er meginstoðin í stefnu ESB um einsleitan fjármálamarkað í Evrópu. Tilskipunin og réttargerðir henni tengdar fela í sér töluverðar breytingar á regluverki fyrir fjármálafyrirtæki innan EES frá eldri tilskipun (Investment Services Directive – ISD). Víðtækari kröfur en áður hafa þekkst munu jafnframt ná til vöruflokka og eignaflokka (asset classes) sem hingað til hafa verið utan EES réttar.

MiFID er yfirgripsmikil og nær til margra hluta af starfsemi fjármálafyrirtækjanna. Hún felur meðal annars í sér breytingar hvað varðar:

  • Upplýsingagjöf til viðskiptavina
  • Flokkun viðskiptavina
  • Ráðgjöf fyrir mismunandi flokka viðskiptavina
  • Bestu framkvæmd
  • Kröfur til viðskiptavina
  • Upplýsingar um fjármálagerninga
  • Varnir gegn hagsmunaárekstrum

Gera má ráð fyrir að íslensk fjármálafyrirtæki þurfi að fara í gegnum nákvæma skoðun á því hvort og hvernig þau muni uppfylla skilyrðin; gera þarf breytingar á tölvukerfum, þjálfa starfsfólk ásamt því að aðlaga kynningarefni og samninga við viðskiptavini að nýjum kröfum.

Tækifærin sem felast í tilskipuninni

Töluverð tækifæri felast í MiFID þar sem tilskipunin gerir fjármálafyrirtækjum mögulegt að þjónusta mismunandi markaðssvæði innan EES án þess að uppfylla aðrar kröfur en þær sem Fjármálaeftirlitið gerir til þeirra. Í þessu felst töluverð breyting frá núverandi fyrirkomulagi. Jafnframt verður auðveldara fyrir fyrirtæki að eiga viðskipti með skráð verðbréf utan kauphalla þar sem þess er ekki lengur krafist að viðskipti með skráð verðbréf eigi sér stað í eða séu tilkynnt í viðskiptakerfi kauphallar og þar af leiðandi geta fyrirtækin kosið að gerast innmiðlarar (systematic internalizers).

Hagur fjárfesta af tilskipuninni felst í meira gagnsæi, fleirum valkostum á mörkuðum með verðbréf, samræmdum kröfum á fjármálamörkuðum EES og að öllum líkindum lægri verðlagningu á þjónustu fjármálafyrirtækja með aukinni veltu og samkeppni

Breytingar í kjölfar MiFID

Þess ber að gæta að nýju reglurnar kunna að fela í sér töluverðar breytingar á gildandi viðskiptamódeli. Þannig er líklegt að viðskiptamódel fjármálafyrirtækjanna þarfnist aðlögunar á nýrri flokkun viðskiptavina í almenna fjárfesta, fagfjárfesta og viðurkennda gagnaðila (eligible counterparties) sem þarfnast mismikillar verndar og leiðbeiningar.

Fyrirtækin verða auk þess að búa yfir fullnægjandi innra regluverki um skýrslugjöf vegna hagsmunaárekstra innan samstæðunnar, þ.e. milli móðurfélags og/eða dótturfélaga. Regluverkinu er ætlað að ná yfir mögulega hagsmunaárekstra og ákvarða hvernig á þeim er tekið innan samstæðu og við framkvæmd viðskipta. Þetta felur í sér líkur á því að krafist verður endurmats á innra eftirliti, stefnumótun, geymslu upplýsinga, þjálfun og upplýsingagjafar.

Í hverju felst aðstoð PwC við fjármálafyrirtækin?

PricewaterhouseCoopers (PwC) býr yfir sérhæfingu til að aðstoða fyrirtæki í innleiðingu MiFID og þætta kröfur tilskipunarinnar í upplýsingakerfi og þjónustuþætti við viðskiptavini (customer relationships management). Við aðstoðum fyrirtækin jafnframt í því að koma auga á tækifæri og áskoranir sem felast í MiFID stjórnun, uppfærslu ferla, aðlögun viðskiptamódela og könnun á því hvort að MiFID innleiðingarverkefni fjármálafyrirtækjanna standist kröfur laga og reglna fjármálaeftirlita í Evrópu.

PwC á Íslandi hefur unnið að þróun þjónustu við íslensk fjármálafyrirtæki í tengslum við MiFID í nánu samstarfi við PwC í Bretlandi sem er leiðandi ráðgjafi fjármálafyrirtækja á breska markaðinum vegna flókinna Evrópuréttargerða, t.d. MiFID, BASEL II, IFRS (alþjóðlegra reikningsskilastaðla) o.fl. Eftir því sem tilefni er til eru ráðgjafarverkefni á þessu sviði unnin af sameiginlegu teymi íslenskra og breskra ráðgjafa PwC sem búa yfir reynslu og sérfræðiþekkingu á margvíslegum MiFID verkefnum.

Fylgstu með okkur