Skip to content Skip to footer
Search

ISA-540

Breyting á endurskoðunarstaðli um matskennda liði

Breyting á endurskoðunarstaðli um matskennda liði ISA 540 – Hvaða áhrif hefur breytingin út frá sjónarhóli stjórnenda 
Umfang matskenndra liða í reikningsskilum hefur aukist á síðustu árum. Upptaka félaga á reikningsskilastöðlunum IFRS 9, IFRS 15 og IFRS 16 hefur leitt af sér flókna matskennda liði. Það óvissuástand sem hefur skapast síðastliðið ár vegna COVID-19 heimsfaraldursins hefur einnig gert það að verkum að erfiðara er að meta hvernig óvissuþættir sökum heimsfaraldursins endurspeglast í þessum liðum. Við á endurskoðunarsviði höfum síðastliðna mánuði þurft að leggja aukna vinnu og áherslu á áhættumat og kortlagningu á matskenndum liðum hjá þeim félögum sem við erum að endurskoða. 

Endurbætt útgáfa af endurskoðunarstaðli um matskennda liði tók gildi fyrir fjárhagstímabil sem hefjast 15. desember 2019 eða síðar. Öll félög sem eru í endurskoðun hjá okkur vegna reikningsskilaársins 2020 og síðar þurfa því að fylgja ákvæðum ISA 540 (R). Í endurbætta staðlinum hafa orðið breytingar á skilgreiningum á helstu hugtökum. Endurbætti staðallinn kynnir til leiks ítarlegra áhættumat þar sem meta þarf áhættu matskenndra liða út frá eðlislægum áhættuþáttum eins og matsóvissu (e. estimation uncertainty), flækjustigi (e. complexity), huglægni (e. subjectivity) ásamt öðrum áhættuþáttum. Allir verulegir matskenndir liðir þurfa að fara í gegnum mat á þessum áhættuþáttum. Í staðlinum er lögð aukin áhersla á ítarlegri skjölun og endurskoðun skýringa vegna matskenndra liða. Einnig er lögð áhersla á það að umfang prófanna vegna matskenndra liða fari eftir eðli og mati á ofangreindum áhættuþáttum og skerpt er á þremur aðferðum til að svara þeim áhættum:

  1. Afla endurskoðunargagna um atburði sem hafa átt sér stað frá lok reikningsskiladags fram að áritun endurskoðanda
  2. Prófa hvernig stjórnendur framkvæmdu mat sitt; og
  3. Endurskoðandinn framkvæmir sitt eigið mat (e. point estimate)

Breytingin á staðlinum hefur jafnframt áhrif á stjórnendur félaga sem eru endurskoðuð. Vegna aukinnar áherslu endurskoðenda á matskennda liði þurfa stjórnendur fyrirtækja að vera meðvitaðir um að áherslur þeirra og framkvæmd vinnu kunni að breytast.  Hér fyrir neðan verða tekin saman nokkur atriði sem breytingin hefur áhrif á út frá sjónarhóli stjórnenda.

 

Ítarlegri fyrirspurnir vegna yfirsýnar stjórnenda og þeirra skilnings á matskenndum liðum við áhættumat
Stjórnendur þurfa að svara fyrir og vera meðvitaðir um liði í reikningsskilunum sem eru bundnir reikningshaldslegu mati. Stjórnendur þurfa meðal annars að vera meðvitaðir um hvernig áhættumat félagsins greinir og tekur á áhættu í tengslum við reikningshaldslegt mat. Stjórnendur þurfa að meta og svara fyrir það hvort þeir telji þörf á að fá sérfræðinga við aðstoð á mati á matskenndu liðunum og þá rökstyðja hvers vegna ekki ef svo er. Stjórnendur þurfa að vera meðvitaðir um það regluverk sem matskenndu liðirnir þurfa að fara eftir, t.d. ef það er eftirlit hjá FME, sérstakar reikningsskilareglur eða íslensk sérlög. Stjórnendur þurfa einnig að vera vel meðvitaðir um helstu skýringakröfur.

Ítarlegri kröfur varðandi skilning okkar á félaginu, innra eftirliti og upplýsingakerfum sem snúa að matskenndum liðum, sem er hluti af okkar áhættumati, munu líklegast leiða til að við verjum meiri tíma í fundi með stjórnendum, beitum fyrirspurnum til starfsfólks og öðlumst skilnings á eftirlitsaðgerðum. Fókusinn á eðlislæga áhættuþætti (einkenni mats sem stýrir áhættu á rangfærslum) mun einnig þýða að meiri tími fer hjá okkur í að framkvæma áhættumat á liðum sem háðir eru reikningshaldslegu mati og geta leitt til aukinnar endurskoðunaráhættu eða breytinga á endurskoðunaráætlun til að bregðast við þeirri áhættu.

Stjórnendur þurfa að hafa í huga að framkvæma „Retrospective review“ vegna matskenndra liða
„Retrospective review“ er skoðun á því hvernig mat fyrra tímabils endurspeglast í raunverulegri útkomu. T.d. ef niðurfærsla viðskiptakrafna í lok fyrra árs er 50 en raunverulegt tap á viðskiptakröfum er 100 gæti það gefið vísbendingar um að matskenndi liðurinn hafi verið vanmetinn í lok fyrra árs. Slíkt vanmat getur haft áhrif á okkar áhættumat.  Endurbætti staðallinn gerir kröfu um það að við sem endurskoðendur fáum upplýsingar frá stjórnendum um hvort þeir framkvæmi þetta mat og ef stjórnendur gera það ekki, gerir staðalinn þær kröfur að við framkvæmum það sjálf. Stjórnendur þurfa svo að svara fyrir niðurstöður matsins.

 

Virkni eftirlitsaðgerða vegna matskenndra liða
Endurbætti staðallinn leggur áherslu á mikilvægi ákvarðana endurskoðandans um hvort prófa eigi virkni eftirlitsaðgerða, ásamt aukinni áherslu á skilning á eftirlitsumhverfi og upplýsingakerfum sem snúa að matskenndum liðum. Stjórnendur þurfa að vera vel meðvitaðir um þessa þætti.

Aðferðir, forsendur og gögn notuð við mat
Endurbætti staðallinn fjallar um ítarlegri kröfur til okkar sem endurskoðenda við að prófa aðferðir, verulegar forsendur og gögn sem notuð eru við mat. Vegna þessa þá geta eðli, tímasetning og umfang prófana breyst og nauðsynleg skjölun aukist. Stjórnendur þurfa að vera vel meðvitaðir um þessa þætti.

Skýringar í ársreikningi vegna matskenndra liða
Endurbætti staðallinn leggur meiri áherslu á endurskoðun skýringa með ársreikningi, einkum þær er varða matsóvissu. Í staðlinum er krafa um það að endurskoðandinn meti áhættu og framkvæmi prófanir á skýringum matskenndra liða. Þetta getur gert það að verkum að endurskoðandi þurfi að endurskoða skýringar fyrr í ferlinu og því þurfa stjórnendur að vera með skýringar tilbúnar tímanlega. 

Það er ljóst að endurbætti staðallinn setur meiri kröfur á okkur sem endurskoðendur vegna matskenndra liða. Það gerir það að verkum að stjórnendur þeirra félaga sem við erum að endurskoða þurfa að geta mætt þessum auknu kröfum svo að við getum framkvæmt okkar endurskoðun í samræmi við ákvæði endurbætta staðalsins.

 

Reynsla eftir innleiðingu 
Nú er meira en eitt ár liðið frá því að endurbætti staðallinn var tekinn upp. Greinahöfundur spurðist fyrir um hjá verkefnastjórum á endurskoðunarsviði um hver þeirra reynsla væri af upptöku staðalsins eftir endurskoðun fjárhagsársins 2020. Svörin voru flest á þann veg að fólk fann helst fyrir breytingum þegar kemur að því að framkvæma greiningu afturábak eða “retrospective review”. Í mörgum tilvikum sé það þannig að stjórnendur framkvæma ekki þessa greiningu vegna matskenndra liða í reikningsskilunum. Eins og fram hefur komið setur staðallinn kröfu um það að við sem endurskoðendur fáum upplýsingar frá stjórnendum hvort þeir framkvæmi þetta mat og ef stjórnendur gera það ekki, gerir staðalinn þær kröfur að við framkvæmum það sjálf í okkar endurskoðunaraðgerðum. Verkefnastjórar endurskoðunarverkefna töluðu einnig um að með upptöku staðalsins hefði vinna við skjölun aukist til muna.

 

Fylgstu með okkur

Contact us

Friðgeir Sigurðsson

Friðgeir Sigurðsson

Forstjóri, PwC Iceland

Sími 550 5366

Hide