PwC hefur hlotið samþykki Kauphallar Íslands sem viðurkenndur ráðgjafi á First North markaðnum. Með þessu er PwC orðið fullgildur ráðgjafi fyrirtækja bæði við frumskráningu á First North og á þeim tíma sem viðskipti eru með bréf skráðs félags á markaðinum.
Skráningu á markað fylgja auknar kröfur til stjórnenda, innri ferla og upplýsingagjafar til innra og ytra umhverfis. Félögum sem sækja um skráningu á First North er skylt að gera samning við viðurkenndan ráðgjafa. Ef viðeigandi reynsla og umgjörð eru til staðar getur útgefandi sótt um undanþágu frá því skilyrði að vera með samning við viðurkenndan ráðgjafa eftir töku til viðskipta. Viðurkenndur ráðgjafi þarf þó alltaf að koma að skráningarferlinu.
Viðurkenndur ráðgjafi er lögaðili sem hefur fengið samþykki Nasdaq Iceland til að hafa milligöngu um skráningu á First North og til að veita stjórnendum leiðbeiningar um upplýsingagjöf í skráningarferlinu og þann tíma sem félagið er skráð á markaðnum. Viðurkenndur ráðgjafi sinnir mikilvægu verkefni fyrir félög sem eru skráð á First North.
Veigamikið hlutverk viðurkenndra ráðgjafa er að liðsinna við að standa vörð um gæði og trúverðugleika First North. Skylda viðurkennds ráðgjafa felst m.a. í því að hafa eftirlit með því að stjórnendur sinni upplýsingaskyldunni í samræmi við ákvæði reglna First North.