Nordic IPO Watch H1 2024

Rólegt yfir frumskráningum á markað

PwC hefur gefið út samantekt um skráningar hlutabréfa á markaði í Norðurlöndunum á fyrri árshelmingi 2024. Þar kemur fram að alls voru 13 skráningar og frumskráningar á markað í kauphallirnar á Norðurlöndunum á tímabilinu, samanborið við 10 á seinni árshelmingi 2023 og 11 á fyrri árshelmingi 2023.

Alls sóttu félög 655 milljónir evra í fjármögnun í tengslum við skráningar á fyrri árshelmingi 2024, en til samanburðar sóttu félög samtals 901 milljón evra í fjármögnun á öllu árinu 2024 í tengslum við skráningar á markað á Norðurlöndunum.

Svíþjóð og Noregur skera sig úr hvað skráningar varðar. Flestar skráningar voru í Svíþjóð, en þar voru 9 frumskráningar þar sem félög sóttu samtals 264 milljónir evra. Í Noregi voru 4 frumskráningar þar sem félögin sóttu samtals 391 milljón evru. Engar frumskráningar voru í Danmörku, Finnlandi eða Íslandi. Á Íslandi voru þó hlutabréf Oculis tekin til viðskipta en þar sem hlutabréf félagsins voru þegar skráð í kauphöll í Bandaríkjunum teljast þau ekki með frumskráningum.

Á heildina litið var því rólegt yfir frumskráningum á markað á Norðurlöndunum á fyrri árshelmingi. Frá árinu 2023 má greina örlitla aukningu, en þau umsvif eru bundin við Svíþjóð og Noreg. Ákveðinnar bjartsýni gætir þó gagnvart horfum fyrir frumskráningar á seinni hluta ársins og á árinu 2025. Gögn PwC gefa til kynna að mörg fyrirtækin hafi hug á skráningu á markað og séu að vinna að undirbúningi skráningar. Skilyrði á mörkuðum eru þó af mörgum talin krefjandi og því er lögð áhersla á að vera tilbúin í skráningu þegar rétta tímasetningin býðst.

Samantekt PwC má finna hér.

Fylgstu með okkur