Afrekshugur

Þann 22. ágúst, á afmælisdegi listakonunnar Nínu Sæmundsson, var afhjúpuð afsteypa af listaverkinu Afrekshugur í miðbæ Hvolsvallar. Þar með lauk hlutverki styrktarfélagsins Afrekshugur sem stofnað var á heimaslóðum listakonunnar í Rangárþingi eystra. Tilgangur félagsins var að safna fé til þess að gera afsteypu af listaverkinu, flytja hana til landsins og reisa á Hvolsvelli til minningar um listakonuna. PwC er stoltur styrktaraðili þessa verkefnis.

Nína Sæmundsson var fædd og uppalin í Fljótshlíð og varð hún fyrsta íslenska konan sem gerði höggmyndalist að ævistarfi sínu. Henni tókst að mennta sig og ná frama í höggmyndalist sem hennar samtíð taldi ekki á kvenna færi. Árið 1930 tók hún þátt í samkeppni Waldorf Astoria hótelsins í New York um höggmynd sem skyldi verða einkennistákn hótelsins. Verk Nínu, Spirit of Achievement, var valið úr 400 innsendum tillögum. Styttan var sett upp fyrir ofan inngang hótelsins árið 1931 og hefur síðan þá verið táknmynd Waldorf Astoria hótelsins í New York og eitt af einkennistáknum borgarinnar. Árið 2016 hófust endurbætur á Waldorf Astoria hótelinu og var styttan tekin niður og sett í geymslu á meðan á framkvæmdum stóð. Eigendur hótelsins samþykktu að gefa sveitarfélaginu Rangárþingi eystra þrívíddarskönnun af höggmyndinni og með því varð mögulegt af gera afsteypu af verkinu.

Verkið var sett upp til þess að heiðra minningu listakonunnar á hennar heimaslóðum. Vonast er til að styttan verði hvatning til að kveikja afrekshugann hjá fólki sem þarf að horfast í augu við mótlæti í sínu lífi og minnisvarði um hvernig hægt er að láta drauma sína rætast. Við hvetjum alla til að heimsækja Hvolsvöll og skoða þetta merka listaverk.

Mynd af styttunni Afrekshugur
Mynd af Afrekshug í myrkri
Fylgstu með okkur