Elín Pálmadóttir hefur tekið við sem sviðsstjóri bókhalds og launa hjá PwC en sviðið aðstoðar fyrirtæki og rekstraraðila með bókhald, laun, ársreikninga og framtalsskil. Elín hefur starfað hjá PwC frá árinu 2015.
Elín er fædd í Reykjavík árið 1988 og bjó í Efra Breiðholti fyrstu árin en flutti svo með fjölskyldu sinni í Mosfellsbæ, þar sem hún ólst upp. Elín hefur alltaf verið mikill Mosfellingur, æfði fótbolta með Aftureldingu fram eftir öllu og var svo heppin að komast á fótboltastyrk í Miami í Bandaríkjunum árið 2010. Það ævintýri varði þó aðeins einn vetur og flutti hún aftur heim á klakann í nokkra mánuði þar til útlandaþráin heltók hana aftur. Áfangastaðurinn var fallega listamannaborgin Barcelona og stundaði hún nám við Háskóla Íslands á meðan. Á þessum tíma var fjarnám enn af skornum skammti og því urðu flugferðirnar margar þar sem hún skottaðist heim í próf.
Þegar hún kom heim heillaði Kópavogurinn og er hún í dag tveggja barna móðir og Kópavogsbúi. Sjálf segir hún að ef hún hefði spurt sjálfa sig fyrir 5 árum síðan hvort hún myndi einhvern tíman standa á hliðarlínunni á fótboltaleik og kalla áfram Breiðablik hefði hún sennilegast sprungið úr hlátri og fengið nett óbragð í munninn við tilhugsunina. Í dag er hún stoltur Bliki en segist þó vera með rautt Aftureldingarhjarta.
Elín hlaut viðurkenningu sem bókari árið 2013 og kláraði B.S. í viðskiptafræði sama ár. Árið 2016 útskrifaðist hún með meistaragráðu í reikningshaldi og endurskoðun frá Háskóla Íslands og hlaut löggildingu sem endurskoðandi árið 2019.
Elín byrjaði snemma að vinna við bókhald eða aðeins 15 ára í birgðabókhaldi Hagkaupa. Því starfi sinnti hún fyrst sem sumarstarfsmaður og í framhaldi samhliða menntaskólanámi. Árið 2008 hóf hún störf hjá Gæða Endurskoðun ehf. og í framhaldi vann hún hjá Bókhaldi og kennslu ehf. Árið 2015 hóf hún störf hjá PwC fyrir einskæra tilviljun en PwC hafði verið í viðræðum um samruna Bókhalds og kennslu ehf. við móður hennar, sem er eigandi félagsins. Ekkert varð úr þeim samruna en Elín ákvað hins vegar að slíta sig frá móður sinni og heillaðist af starfsandanum hjá PwC.
Elín er gift Atla Þór Jóhannssyni, endurskoðanda hjá PwC og eiga þau saman tvo stráka, einn hund og er þriðja barnið á leiðinni.
Þegar hún er spurð um leyndarmál, þ.e. eitthvað sem fæstir vita um hana, kemur í ljós að hún lék í tónlistarmyndbandi hjá heimsfrægum tónlistarmanni, bandaríska rapparanum Pitbull, þegar hún bjó í Miami.