Baráttan við loftslagsvána í formi aukinnar skattheimtu

- Margrét Sigurðardóttir, lögfræðingur

Á hverju hausti leggur fjármála- og efnahagsráðherra fram fjárlagafrumvarp næsta árs fyrir Alþingi. Í frumvarpinu sem lagt var fyrir þingið núna, um miðjan september, segir að með þeim skattbreytingum sem stendur til að ráðast í nú á komandi ári, sé ætlað að vera viðbragð við breyttum efnahagshorfum en einnig að fylgja eftir stefnu stjórnvalda í ýmsum málum. Samkvæmt frumvarpinu voru flestar breytingarnar kynntar í maí sl. sem viðbrögð við ríkisfjármálum í því skyni að spyrna gegn frekari þenslu og verðbólgu. Þannig er gert ráð fyrir að fyrirhugaðar skattabreytingar muni auka tekjur ríkissjóðs um 14 ma.kr. 

Í frumvarpinu segir að þrátt fyrir að bein áhrif breytinganna á vísitölu neysluverðs geti mælst allt að 0,4% þá dragi þær engu síður úr almennum verðbólguþrýstingi með því að hamla þenslu í hagkerfinu. Þannig er dregið úr frekari þörf á hækkun stýrivaxta auk þess að ríkissjóður yrði betur í stakk búinn til að mæta framtíðarniðursveiflum. Bent er á að þrátt fyrir bein áhrif umræddra skattbreytinga á vísitölu neysluverðs, sem er ætlað að mæla og gefa rétta mynd af þróun á verðlagi einkaneyslu, þá eru í frumvarpinu almennu áhrif á verðstöðugleika og efnahagslegan stöðugleika talin vega þyngra en hækkun vísitölu neysluverðs. 

Hér að neðan verður tæpt á breytingum er varða vörugjald á nýja fólksbíla, hækkun bifreiðagjalds ásamt boðun um nýjan skatt, þ.e. svokallað varaflugvallargjald, og hvernig fyrirhugaðar hækkanir og nýr skattur sé liður í baráttunni við loftlagsvána.

Vörugjald á nýja fólksbíla og bifreiðagjald hækkar

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að á síðastliðnum árum hefur fjölgað hratt í hópi bíleigenda sem greiða lítið fyrir notkun vegakerfisins þar sem tekjur ríkissjóðs af vistvænum bílum séu takmarkaðar. Jafnframt séu hefðbundnir bensín- og dísilbílar að verða sparneytnari en þar sem skattlagning er að miklu leyti byggð á losun koltvísýrings hafa tekjur af hefðbundnum bílum einnig lækkað frá því sem áður var. Kemur fram að það standi til að gera frekari breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis á kjörtímabilinu. 

Fyrr á árinu var rafmagnsbílum sem hljóta ívilnun á greiðslu virðisaukaskatts fjölgað úr 15 þúsund í 20 þúsund en slík breyting er samkvæmt frumvarpinu talin lækka tekjur ríkissjóðs um 3,6 ma.kr. Lagt er til að gera breytingar á vörugjaldi á ökutækjum, sem lagt er á við innflutning eða framleiðslu ökutækja. Breytingunum er ætlað að „breikka skattstofn vörugjalds“ en tekjur af vörugjaldi fólksbíla eiga að hafa dregist hratt saman síðustu ár. Með breytingunni er áætlað að fleiri fólksbílar beri vörugjald og gera má ráð fyrir að sala nýrra fólksbíla muni samhliða hækka um allt að 5%. Einnig megi leiða líkur að því að verðmæti eldri fólksbíla, sem fyrir eru á landinu, muni auk þess hækka vegna hærra endursöluverðs á almennum markaði. Bein áhrif þessara boðaðra breytinga á vísitölu neysluverðs er um 0,2% til hækkunar. Áætlað er að þessi breyting muni skila ríkissjóði 2,7 ma.kr. í viðbótartekjur. Samhliða er einnig gert ráð fyrir breytingum á bifreiðagjaldi en með þessum aðgerðum segir að tekjustofnar ríkissjóðs af þeim ökutækjum, sem knúin eru áfram af eldsneyti, styrkist. Áætlað er að breytingin skili ríkissjóði 2,2 ma.kr. í viðbótartekjur. Þannig er hækkuninni ætlað að taka til þeirra ökutækja sem knúin eru áfram af eldsneyti og samlegðaráhrifin þá væntanlega þau að neytendur og aðrir munu þá leita til vistvænni ökutækja og þannig taka þátt í boðuðum orkuskiptum ríkisstjórnarinnar líkt og boðað var í stjórnarsáttmálanum 2021.

Í frumvarpinu segir einnig að ákvarðanir um tekjuöflun ríkisins felist í forgangsröðun stjórnvalda sem geta haft ólík áhrif á kynin. Í því skyni er vísað til þess að þar sem konur eru almennt með lægri meðaltekjur en karlar þá séu breytingar á vörugjaldi á ökutæki og bifreiðagjaldi líklegri til að hafa hlutfallslega meiri fjárhagsleg áhrif á konur en karla. Á móti séu það hins vegar almennt fleiri karlar sem skráðir eru eigendur fólksbíla og þannig má ætla að tillögur um breytingar á vörugjaldi á ökutæki og bifreiðagjaldi leggist í meira mæli á karla en konur. Greinarhöfundur ætlar þó ekki ganga svo langt að halda fram að karlar mengi meira en konur þrátt fyrir að einhverjir gæti haldið slíku fram. 

Nýr skattur boðaður – varaflugvallargjald

Þá er nýr skattur boðaður undir heitinu varaflugvallargjald og eru tekjur af þessum nýja skatti áætlaðar 1,4 ma.kr. í samræmi við lagafrumvarp sem áformað er að leggja fram á haustþinginu 2022. Engar frekar upplýsingar er að finna í fjárlagafrumvarpinu um það hvernig útfærsla skattsins verði en ákveðnar vísbendingar má mögulega finna í skýrsludrögum að flugstefnu fyrir Ísland frá júlí 2019, sbr. einnig skýrslu starfshóps um uppbyggingu flugvallarkerfisins og eflingu innanlandsflugsins sem almenningssamganga frá nóvember 2018. Í skýrsludrögunum segir að hugmyndin með varaflugvallargjaldi sé að það yrði lagt á flugrekendur með það að markmiði að flýta fyrir uppbyggingu innanlands- og varaflugvalla. Þannig væri mögulega einhver föst krónutala lögð á hvern fluglegg. Kostir við álagningu þessarar gjaldheimtu (skattheimtu) eru sagðir vera að flýta fyrir uppbyggingu innviða á innanlands- og varaflugvöllum. Ókostirnir eru hins vegar þeir að gjaldið kæmi til með að hækka skattbyrði flugrekenda sem að endingu leiðir til hærra farmiðaverðs fyrir almenning. Þannig gæti umrædd skattheimta endurspeglast í færri flugferðum sem leiðir til minni losun á koltvísíringi.

Orkuskipti og færri utanlandsferðir

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 2021 er sérstaklega tekið fram að unnið verði að því að skatta- og gjaldabreytingar styðji við loftlagsmarkmið en samkvæmt sáttmálanum eiga loftlagsmálin að vera í forgangi í starfi ríkisstjórnarinnar. Lagt er til að orkuskipti verði ríkari þáttur til að ná árangri við loftlagsvána samhliða því að styrkja efnahagslega stöðu landsins og verða í forystu í orkuskiptum á alþjóðavísu. 

Með vísan til fyrirhugaðra breytinga, sem raktar eru hér að ofan, og boðaðar eru í fjárlagafrumvarpinu þá virðist einsýnt að liður í umræddum gjaldahækkunum á vörugjaldi og bifreiðagjaldi, sbr. einnig aukin ívilnun varðandi kaup á rafmagnsbílum, og nýr skattur í formi varaflugvallargjalds sé óbeinn hluti af boðuðum orkuskiptum. Orkuskipti eru lykilatriði þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Með boðum breytingum í frumvarpinu er því farið í markvissar aðgerðir í að beina neytendum og öðrum aðilum óbeint að endurnýjanlegum orkugjöfum á kostnað eldri orkugjafa sem menga meira. Þannig liggja skattalegir hvatar til þess að kaupa vistvænni ökutæki ásamt því að mögulega væri farið í færri utanlandsferðir með hækkun fargjalda verði fjárlagafrumvarpið að lögum.

 

Fylgstu með okkur