Lögfræðihornið

Háar sektir sé skjölunarskyldu þeirra ekki fylgt

Allt að 12 milljóna króna sekt vegna ófullnægjandi skjölunar um milliverðlagningu: Skattyfirvöld geta nú sektað fyrirtæki sé skjölunarskyldu þeirra ekki fylgt, sé henni ábótavant eða ekki í samræmi við lög og reglur um milliverðlagningu. 

Háar sektir sé skjölunarskyldu ekki fylgt
Reglum um milliverðlagningu er ætlað að tryggja að verðákvörðun í viðskiptum tengdra aðila sé í samræmi við verð í sambærilegum viðskiptum þannig að armslengdar sé gætt. Reglurnar eiga við óháð því hvort innlendur lögaðili á í viðskiptum við innlendan eða erlendan lögaðila sem er honum tengdur. Hins vegar á skjölunarskylda eingöngu við þegar innlendir aðilar eiga í viðskiptum yfir landamæri við tengda aðila. 

Skylda til skjölunar felst í upplýsingaöflun, skráningu upplýsinga og varðveislu gagna með það að markmiði að skjölunarskyldur lögaðili geti sýnt fram á og rökstutt að verðákvörðun og skilmálar í viðskiptum við tengda aðila séu í samræmi við armslengdarreglu. Skjölunin sem slík felur ekki í sér tiltekið form skráningar og upplýsingaöflunar heldur tekur hún mið af þeim viðskiptum sem eru skjölunarskyld ásamt rekstri, tengslum og öðrum aðstæðum hins skjölunarskylda aðila. Skjölunin er þannig grundvöllur mats á því hvort verð í viðskiptum tengdra aðila sé í samræmi við armslengdarsjónarmið. Magn og innihald þeirra upplýsinga og gagna sem varðveita ber skal taka mið af eðli og umfangi viðskipta og skal vera þannig framsett að það tryggi sem best aðgengi skattyfirvalda til að ganga úr skugga um að verð og skilmálar í viðskiptum tengdra lögaðila séu í samræmi við það sem gerist í verðlagningu milli ótengdra lögaðila. 

Allt að 12 milljóna króna sekt
Nýlega var lögfest sérstök sektarheimild fyrir ríkisskattstjóra því skort hafði úrræði skattyfirvalda til að framfylgja því að skattaðili skjalaði tengd viðskipti sín eða að þau væru gerð á réttan hátt. Þótti löggjafanum brýnt að leggja til umrædda sektarheimild þar sem það væri grundvallaratriði við alla framkvæmd í milliverðlagningarmálum að skjölunarskyldir aðilar uppfylltu þær skyldur sínar að skjala viðskipti sín við tengda aðila á fullnægjandi hátt. Vert er að hafa í huga að til að ríkisskattstjóri geti beitt sektarheimildinni þá þarf embættið ekki að sýna fram á ásetning eða gáleysi skattaðila.

Sektir fyrir að framfylgja ekki reglum um skjölun geta numið allt að 3 millj. króna fyrir hvert reikningsár sem lögaðili hefur ekki skjalað tengd viðskipti sín, að hluta eða öllu leyti. Sektarálagningin getur verið lengst sex tekjuár aftur í tímann, þ.e. frá því ári sem sektarákvörðun fer fram, og numið hæst 12 millj. króna samtals. Ákvarðanir ríkisskattstjóra um stjórnvaldssekt skulu teknar með úrskurði og er úrskurðurinn aðfararhæfur. Sektirnar bera dráttarvexti frá úrskurðardegi séu þær ekki greiddar innan mánaðar frá því að úrskurður er kveðinn upp. Ríkisskattstjóra er heimilt að lækka sektina séu ákveðin skilyrði uppfyllt. Þá skal einnig hafa í huga að skjölunarskyldan tekur jafnframt til fastra starfsstöðva hér á landi í eigu erlendra félaga. Að sama skapi getur sekt verið lögð á erlendan lögaðila vegna vanrækslu við að skjala viðskiptalegar ráðstafanir hans við föstu starfsstöðina og viðskipta við tengda aðila að hluta eða að öllu leyti. Með viðskiptum í þessu skyni er m.a. átt við viðskiptalegar ráðstafanir milli fastrar starfsstöðvar og höfuðstöðva. Skjölunarskyldan og sektarheimildin er til staðar óháð því hvort hinn erlendi lögaðili hafi skráð útibú hér á landi eða ekki. 

Mikilvægt að skjölun sé gerð og að hún sé fullnægjanleg
Það getur því skipt skattaðila sköpum að gæta að því að skjölunarskyldunni sé fullnægt, þ.e. að skjölun sé gerð á fullnægjandi hátt í samræmi við ákvæði tekjuskattslaga og reglugerðar um skjölun. Skjölunarskyldir aðilar eru því hvattir til að huga að framangreindu til að forðast álagningu sektar. Hjá PwC starfa sérfræðingar í milliverðlagningu sem geta aðstoðað þitt fyrirtæki við að skjala tengd viðskipti og ráðstafanir í samræmi við gildandi lög og reglur. 

 

Fylgstu með okkur

Contact us

Friðgeir Sigurðsson

Friðgeir Sigurðsson

Forstjóri, PwC Iceland

Sími 550 5366

Hide