Löggildingarpróf í endurskoðun

Fyrir marga birtist fyrsti haustboðinn í kjölfar verslunarmannahelgar þegar daginn tekur að stytta og næturnar verða skyndilega aftur myrkar.

Við sem störfum hjá PwC þekkjum einnig annan haustboða, námsmaraþonið mikla. Hvern ágúst eftir sumarfrí dregur hluti af samstarfsfólkinu okkar sig til hlés frá daglegum störfum, flytur sig til innan skrifstofunnar og hópast saman til upplesturs fyrir próf til löggildingar endurskoðunarstarfa. Flest hefja þau undirbúning í byrjun ágúst, en prófin fara fram á tímabilinu 6. til 13 október. Þetta er því rúmlega tveggja mánaða lestrartörn.

Ákvörðun um slíka próftöku á sér langan aðdraganda og undirbúning sem felur m.a. í sér meistaranám í endurskoðun og reikningsskilum og a.m.k. þriggja ára starfsþjálfun, þar sem viðkomandi hefur starfað undir handleiðslu endurskoðanda við endurskoðun ársreikninga og annarra reikningsskila hjá endurskoðunarfyrirtæki.

Prófin eru tvö, annars vegar próf í skattalögum, félagarétti, kostnaðarbókhaldi og stjórnendareikningsskilum og hins vegar próf í endurskoðun og reikningsskilum. Síðara prófið, oft nefnt  „stóra prófið“, er í tveimur hlutum, prófað sitt hvorn daginn, í samtals 14 klukkustundir. 

Samkvæmt upplýsingum frá endurskoðendaráði þreyttu 15 fyrra prófið árið 2021 og náðu 11 prófinu, en 25 þreyttu seinna prófið og náðu 10 prófinu. 

Nú í haust eru það níu starfsmenn PwC sem eru að undirbúa sig fyrir löggildingarprófin, ýmist annað eða bæði prófin. Þau hafa tekið sér bólfestu á svæði ráðgjafar PwC, sem varð góðfúslega við þeirri beiðni að færa sig til á meðan prófatörninni stendur.

Við óskum þessum dugnaðarforkum alls hins besta og hlökkum til að fá þau aftur til starfa eftir prófin, enn öflugri en áður. 

Fylgstu með okkur