Nýr forstjóri

Ljósbrá Baldursdóttir hefur tekið við sem forstjóri hjá PwC. Ljósbrá hefur starfað hjá PwC frá árinu 2002 í hinum ýmsu hlutverkum, en sem sviðsstjóri endurskoðunarsviðs frá árinu 2014.

Ljósbrá er uppalin í vesturbæ Reykjavíkur og bjó þar fram á fullorðinsár. Hún stundaði nám í Menntaskólanum í Hamrahlíð en vann ýmis störf í Landsbanka Íslands meðfram menntaskólanáminu. Ljósbrá er menntaður kennari, útskrifaðist úr Kennaraháskóla Íslands vorið 1996. Eftir útskrift kenndi hún í Háteigsskóla fram til ársins 2000. Í framhaldi af því fór hún í viðskiptafræði í Háskóla Íslands, hóf störf í PwC með námi tveimur árum síðar og hefur starfað þar síðan. Hún fékk löggildingu í endurskoðun árið 2006. 

Á menntaskólaárum sínum í Hamrahlíð lærði Ljósbrá að spila bridge, fór fljótlega að keppa á helstu mótum, gekk vel, fékk sæti í kvennalandsliði Íslands og hefur margoft spilað fyrir Íslands hönd á erlendri grundu. Hún er auk þess eina konan sem hefur orðið Íslandsmeistari í bridge í opnum flokki. Hún hefur unnið hin ýmsu félagsstörf fyrir Bridgesamband Íslands, setið í stjórn sambandsins og stundað bridgekennslu, bæði fyrir börn og fullorðna. 

Ljósbrá kynntist eiginmanni sínum í gegnum bridge á menntaskólaárum sínum, hann heitir Matthías Þorvaldsson og er einnig landsliðsmaður í þessari stórskemmtilegu íþrótt. Þau hjónin hafa spilað saman alla tíð með góðum árangri. Þau búa nú ásamt tveimur yngstu börnum sínum neðst í Seljahverfinu í Reykjavík. Ljósbrá og Matthías eiga alls 6 börn og 3 barnabörn þannig að það er oft mikið fjör á heimilinu. 

Á síðustu árum hefur bridge aðeins þurft að færa sig í aftursætið hjá Ljósbrá vegna aukinna verkefna í vinnu, en ekki síður vegna þess að Ljósbrá smitaðist mjög harkalega af golfbakteríunni illvígu og hefur gengið mjög illa að læknast af henni. Ljósbrá er í dag mjög virk á golfvellinum og veit ekkert betra en að komast þangað í góðan golfgöngutúr með skemmtilegu fólki, hvort sem er á Íslandi eða erlendis. Hún hefur sést á íslenskum golfvöllum í öllum mögulegum veðrum þannig að ef hún týnist er trúlega best að senda leitarflokk út á golfvöll.

 

Fylgstu með okkur