Örvar Omrí Ólafsson

Á aðalfundi PwC þann 1. október 2021 samþykktu eigendur að bjóða Örvari Omrí Ólafssyni, löggiltum endurskoðanda á skrifstofu PwC í Vestmannaeyjum, að gerast eignaraðili að félaginu. 

Ritnefndin hafði samband við Örvar Omrí til að kynnast honum nánar. 

Í ljós kom að Örvar Omrí er fæddur og uppalinn í Reykjavík og bjó í Breiðholtinu fram til ársins 2015 þegar hann lét undan kröfum betri helmingsins um að flytja til Vestmannaeyja. Nú vill hann hvergi annars staðar vera en í Eyjum og segist ekki skilja hvað það tók hana langan tíma að sannfæra hann um að flytja. Þetta hafi kennt honum að „stundum sér maður ekki tækifærin jafnvel þó þau bíti mann í afturendann“.

Örvar Omrí lauk viðskiptafræði (B.Sc.) árið 2005 frá Háskólanum í Reykjavík og í ársbyrjun 2009 útskrifaðist hann með meistaragráðu í reikningshaldi og endurskoðun (M.Acc) frá Háskóla Íslands. Aðstæður voru þannig að hann gat ekki verið viðstaddur útskriftina úr M.Acc náminu, því sama dag kom fyrsta barnið hans í heiminn.  

Að loknu B.Sc. námi hóf hann störf hjá PwC í Reykjavík og vann þar á árunum 2005 - 2008 en árið 2008 fór hann yfir til Kynnisferða ehf. og gegndi stöðu fjármálastjóra þar fram til ársins 2014. Að sögn Örvars Omrí var sá tími virkilega gefandi og ótrúlega gott veganesti þegar hann sneri aftur yfir í endurskoðunina. Þar lærði hann öðru fremur hversu gríðarlega mikilvægt það er að hafa sterkan grunn í reikningsskilum og þakkaði hann sínu sæla fyrir að hafa unnið í þrjú ár á endurskoðunarskrifstofu. Ef eitthvað er þá telur Örvar Omrí að gott hefði verið að hafa enn sterkari þekkingu á reikningshaldslegum, skattalegum og félagaréttarlegum málum, en það vildi svo blessunarlega til að stjórnarformaður félagsins var löggiltur endurskoðandi og naut Örvar Omrí mikils stuðnings frá honum á þessum tíma hjá Kynnisferðum. 

Árið 2014 ákvað hann að fara aftur í endurskoðun og vann hjá BDO endurskoðun á árunum 2014 - 2018 þar til hann kom aftur heim til PwC. Hann fór í löggildingarprófin árið 2015 og fékk löggildingu árið 2016. 

Örvar Omrí er giftur Kolbrúnu Kjartansdóttur og á með henni þrjú börn, sem eru 8, 10 og 12 ára. Helsta áhugamál hans fyrir utan vinnu er tónlist, en hann hefur spilað á gítar frá níu ára aldri. Önnur áhugamál eru ferðalög og útivist sem hann reynir að iðka eftir því sem tími gefst, en segir jafnframt að það getur verið erfitt þegar maður er með þrjá gorma á ungum aldri.

Spurður um leyndarmál, þ.e. eitthvað sem fæstir vita um hann, svarar hann: 

Ég ber það kannski ekki með mér í dag, en áður en ég byrjaði í háskóla var ég einbeittur í því að verða tónlistarmaður, gekk um í útvíðum gallabuxum og rifnum leðurjakka og var með sítt hár niður á mitti. Ég spilaði í ýmsum hljómsveitum en engum sem náðu neinum hæðum. 

Að lokum stóðumst við ekki mátið að spyrja út í millinafnið, Omrí, og uppruna þess. 

Hann staðfesti grun okkar um að nafnið komi úr Biblíunni, en móðir hans hefur alla tíð verið mikil áhugamanneskja um Ísrael í tengslum við kristilegan bakgrunn. Nafnið er hebreska og þýðir einfaldlega Ómar. Omrí var konungur í Ísrael og því miður er hans ekki minnst fyrir að vera sérstaklega góður konungur. Ég verð klárlega að reyna að breyta því ef ég verð einhvern tímann konungur í Ísrael sagði Örvar Omrí að lokum. 

Örvar O. Ólafsson
Fylgstu með okkur

Contact us

Friðgeir Sigurðsson

Friðgeir Sigurðsson

Forstjóri, PwC Iceland

Sími 550 5366

Hide