Níu af hverjum 10 rafbílaeigendum segjast ánægðir með kaup sín og akstursupplifunina, en helmingur segir að heildarverð hafi ráðið úrslitum um kaupákvörðunina. Þótt rafbílum fjölgi á heimsvísu eru mismunandi hindranir milli landa sem reyna á traust neytenda gagnvart rafbílum og stjórnvöld hafa með ólíkum hætti gert brautirnar misgreiðar fyrir rafbílavæðingu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri viðhorfskönnun PwC um upplifun neytenda rafbíla sem nær til 17.000 ökumanna í 28 löndum. Könnunin veitir innsýn í þá þætti sem stuðla að rafbílavæðingu og greinir jafnframt frá áhyggjum neytenda um rafbíla sem framleiðendur rafbíla þurfa að takast á við.
Rafbílavæðing á heimsmælikvarða byrjaði fyrir rúmum 20 árum og síðan þá hefur iðnaðurinn og samsvarandi innviðir stækkað gífurlega. En vöxtur rafbílamarkaðarins snýst ekki einungis um sölutölur rafbíla.
PwC hefur birt könnun (2025 eReadiness Survey) sem sýnir skýrt að heilt yfir hafa innviðir, samgöngur og kerfi utan um rafbílavæðinguna stækkað, þroskast og myndað ný svið í verðmætasköpun eftir því sem neytendur sjá í auknum mæli að akstur er sífellt að verða samtengdari orku-, tækni- og lífstílsákvörðunum okkar.
Rannsókn PwC, sem snýr að afstöðu neytenda gagnvart rafbílum sem og þróun innviða og hvata stjórnvalda eftir svæðum, sýnir að vöxturinn felur í sér umtalsverð tækifæri fyrir ekki einungis rótgróin fyrirtæki á markaðnum heldur einnig sprotafyrirtæki og önnur fyrirtæki sem vilja nýta breytinguna á því hvernig við færum okkur á milli staða.
Rafbílaiðnaðurinn, verksmiðjur, rafhlöðuframleiðendur, endurvinnsluaðilar og sífellt vaxandi flóra af vörum og þjónustum laðar að sér verulegar fjárfestingar. En rannsóknin leiðir í ljós einnig talsverðar áskoranir sem eru framundan. Rafvæðing samganga gengur á mismunandi hraða víða um heiminn þar sem aðstæður, stefnur og framfarir eru ólíkar á milli landa. Til að fjárfestingar rafbílaiðnaðarins á heimsvísu skili ábata, þá þurfum við öll að vera samstillt og sýna átak sem stuðlar að frekara aðgengi að rafbílum um allan heim.