Skip to content Skip to footer
Search

Nýr fjármálastjóri PwC

Silja Guðrún Sigvaldadóttir

Silja Guðrún Sigvaldadóttir hefur hafið störf sem fjármálastjóri PwC og tekur hún við af Sigurbjörgu Halldórsdóttur sem hefur starfað hjá PwC í tæp 38 ár, þar af sem skrifstofustjóri og síðar fjármálastjóri s.l. 25 ár. Um leið og við kynnum Silju Guðrúnu þökkum við Sigurbjörgu fyrir vel unnin störf og frábært samstarf.

Silja Guðrún er fædd á Akranesi árið 1978 og er uppalin í Kolbeinsstaðahreppi, vestan af Borgarnesi. Við sameiningu árið 2006 varð hreppurinn hluti af Borgarbyggð. Hún gekk i grunnskólann að Laugagerði sem var heimavistarskóli allt fram á síðustu ár hennar í skólanum. 

Við upphaf framhaldsskóla flutti hún til Reykjavíkur og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1997, af eðils- og náttúrufræðibraut. Árið 2003 lauk Silja Guðrún prófi í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og ári síðar af reikningshalds- og endurskoðunarsviði Háskóla Íslands. Hún hóf störf hjá PwC árið 2004 og hlaut löggildingu sem endurskoðandi árið 2010.

Seint á árinu 2012 ákvað hún að söðla um þegar hún tók við starfi fjármálastjóra hjá veitingakeðjunni Serrano, samhliða umsjón með ýmsum líkum og ólíkum, tengdum og ótengdum félögum. Á mállísku endurskoðenda er oft talað um að „fara hinu megin við borðið“, þegar endurskoðendur breyta um starfsvettvang, þ.e. fara úr endurskoðun og yfir í önnur störf.  Við hjá PwC fögnum því að Silja Guðrún er aftur komin til starfa við „okkar borð“ eftir tæplega 10 ára fjarveru.  

Silja Guðrún er gift Óskari Valdimarssyni vélsmiði en hann á og rekur með sínum félögum fyrirtækið Eril og eiga þau saman þrjú börn á grunnskólaaldri. Undanfarin ár hefur ekki verið mikið pláss fyrir áhugamál þar sem lífið utan vinnu hefur snúist um barnauppeldi, heimilishald og vinnu við að gera upp gamalt hús sem þau keyptu árið 2015 sem hefur enn ekki tekið enda. 

Börnin hafa fundið sinn eigin farveg í tómstundum og stunda hestamennsku og parkour. Fyrir þá sem ekki hafa heyrt um parkour þá eru það eins konar götufimleikar þar sem klifið er yfir veggi, stokkið milli hindrana og tekin heljarstökk í borgarumhverfinu eða náttúrunni. Hún á rætur sínar að rekja til Parísarborgar árið 1987 þegar hópur fimleika drengja hóf að framkvæma æfingar á opnum leikvangi. Fjölskyldan nýtur þess að ferðast saman, bæði innanlands og utan. Þá nýtur Silja Guðrún þess að lesa og þykir gott að enda daginn á að lesa kafla í góðri bók. 

Að sögn Silju Guðrúnar hafa fjölmörg ný andlit komið inn hjá PwC á þessum 10 árum, en á sama tíma eru allnokkur andlit sem hún þekkir frá fyrri tímum og auðveldar það nýliðakynninguna fyrir henni. 

 

Silja Guðrún Sigmundsdóttir
Fylgstu með okkur