Sjálfbærnivísir PwC er árlegt yfirlit um hvernig sjálfbærnistarfi 50 af stærstu fyrirtækjum Íslands vindur fram með sérstakri áherslu á loftslagsmál. Mat á fyrirtækjunum byggir á opinberum upplýsingum, árs- og sjálfbærniskýrslum, og er unnið af PwC.
Tvö fyrirtæki ná þeim árangri að draga úr losun í samræmi við Parísarsamkomulagið; Arnarlax og Controlant. Þau komast þannig í fyrsta flokk í losunarsamdrætti. Til að komast í fyrsta flokk þarf að gera grein fyrir umfangi 1, 2 og þýðingarmiklum þáttum í umfangi 3 og geta sýnt fram á 7% samdrátt að meðaltali í losun á þremur árum, í samræmi við Parísarsamkomulagið.
Af þeim 50 íslensku fyrirtækjum sem tekin voru til skoðunar gátu 8 sýnt fram á samdrátt í losun frá eigin rekstri og virðiskeðju. Alls greina 17 af fyrirtækjunum 50 frá öllum þýðingarmiklum losunarþáttum. Fyrirtækjum í fyrsta og öðrum flokki fjölgar milli ára, en þrátt fyrir að um sé að ræða jákvæða þróun, þá gengur hún of hægt. Á heildina litið hafa atvinnugreinarnar aukið losun sína frá 2022 til 2023 og frá 2023 til 2024. Þau fyrirtæki sem ekki hafa náð að draga úr losun eru of mörg og betur má ef duga skal til þess að Ísland geti staðið undir skuldbindingum sínum um að ná fram 55% samdrætti í losun árið 2023, miðað við grunnárið 1990.
Um Sjálfbærnivísi PwC
Sjálfbærnivísi PwC er ætlað að vera árlegt yfirlit yfir árangur sjálfbærnistarfs stærstu fyrirtækja Íslands. Mat á fyrirtækjunum byggir á opinberum upplýsingum (árs- og sjálfbærniskýrslum) og matið er unnið af PwC.
Í Sjálfbærnivísinum er kortlagt hvernig fyrirtækin standa að grænum umskiptum, með sérstaka áherslu á loftslags-mál að þessu sinni og veita niðurstöðurnar verðmæta innsýn í stöðu mála. Einnig hefur upplýsinga verið aflað um aðra þætti, til að mynda hvort að sjálfbærni-upplýsingar séu staðfestar og hvort fyrirtæki hafi stuðst við ESRS, Nasdaq Reporting Guide eða VSME staðlana.
Aron Friðrik Georgsson
Örn Valdimarsson