Nýlegur úrskurður yfirskattanefndar vegna skattlagningar á sölu rafmyntar

Margrét Ágústa Sigurðardóttir, lögfræðingur

Skattlagning rafmyntu við sölu

Rafmynt (e. cryptocurrency) er að stofni til tvíundatöluruna sem getur verið nýtt sem greiðslumiðill og getur jafnframt verið háð eignarrétti þar sem færslur eru staðfestar og skjalaðar með dulkóðun í bálkakeðju á opnu og dreifðu netkerfi. Álitamál hefur verið hvernig beri að skattleggja hagnað vegna sölu rafmyntar en slíkur hagnaður getur numið umtalsverðum fjárhæðum. Nýlegur úrskurður yfirskattanefndar gefur ákveðnar vísbendingar hvernig beri að skattleggja hagnaðinn en í tekjuskattslögunum skortir hins vegar bein lagaákvæði er taka á skattlagningu vegna rafmynta.

Nýlegur úrskurður yfirskattanefndar

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 215/2021, frá 22. desember 2021, er að finna ákveðnar vísbendingar um hvernig skattleggja beri hagnað af sölu rafmyntar. Rafmynt telst í raun hvorki vera viðurkenndur lögeyrir né gjaldmiðill samkvæmt íslenskum lögum. Í athugasemdum með frumvarpi er varð að breytingarlögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka segir að rafmyntir teljist hvorki vera viðurkenndur lögeyrir né gjaldmiðill samkvæmt íslenskum lögum. Í íslenskum skattalögum er heldur ekki að finna nein sérákvæði um skattlagningu rafmynta. Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Alþingis um skattlagningu rafmynta kemur fram að ríkisskattstjóri hafi hingað til byggt á því að hagnaður vegna sölu á rafmynt skuli skattleggjast sem hagnaður af sölu lausafjár, sbr. 8. tölul. C-liðar 7. gr., sbr. einnig 1. mgr. 16. gr., tekjuskattslaganna. Þannig væri nærtækast að líta á tekjurnar sem eignatekjur sem skattleggja bæri sem fjármagnstekjur enda væri ekki um atvinnurekstrartekjur að ræða. Þá benti fjármálaráðherra einnig á að til greina kæmi að fella tekjurnar undir 9. tölul. C-liðar 7. gr. en þá væri hagnaður af sölu skattlagður sem almennar tekjur hjá viðkomandi skattaðila en ekki sem fjármagnstekjur.

Í framangreindum úrskurði kemur fram að rafmyntir byggi á bálkakeðjutækni. Tegundirnar teljast á þúsundum og eru þeim ætluð ólík hlutverk. Þannig er sumum ætlað að vera greiðslumiðill í viðskiptum á meðan öðrum er ætlað að þjóna ákveðnu hlutverki eða leysa tiltekin verkefni í stafrænum heimi. Þannig geta rafmyntir verið með undirliggjandi eignir eða endurspeglað tiltekin efnisleg verðmæti, en einnig eru til rafmyntir sem hafa engan annan tilgang en að vera andlag í viðskiptum spákaupmanna. Varðandi það sjónarmið ríkisskattstjóra að skattleggja ætti rafmyntir sem eignatekjur vék yfirskattanefnd að því að rafmyntin Bitcoin hafi hins vegar þau einkenni að engar undirliggjandi eignir eða peningaleg verðmæti standa að baki hverri einingu. Þá er hún ekki til á efnislegu formi, þ.e. í formi seðla eða myntar, heldur takmarkast tilvera hennar við það að vera tvíundartöluruna sem skráð er í bálkakeðju á jafninganeti. Rafmyntin gengur kaupum og sölum og er verðið ákvarðað af framboði og eftirspurn. Þrátt fyrir að rafmyntin Bitcoin hafi sem greiðslumiðill í viðskiptum ákveðin einkenni peninga eða gjaldmiðils eru rafmyntir ekki viðurkenndur lögeyrir á Íslandi og teljast hvorki vera gjaldmiðill né rafeyrir samkvæmt íslenskum lögum. Að þessu athuguðu tók yfirskattanefnd undir það með ríkisskattstjóra að nærtækast væri að líta á tekjur af sölu rafmyntarinnar Bitcoin sem tekjur af sölu lausafjár í skattalegum skilningi, sem skattskyldar eru samkvæmt 8. tölul. C-liðar 7. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 90/2003.

Þá var einnig í málinu vikið að því hvort að undantekningarregla 2. mgr. 16. gr. tekjuskattslaga gæti átt við þar sem rafmyntarinnar hafi ekki, samkvæmt umræddum skattaðila og eiganda myntarinnar, verið aflað í hagnaðarskyni. Ákvæðið kveður á um að hagnaður manns af sölu lausafjár, sem ekki er notað í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, teljist ekki til tekna á þeim forsendum að salan falli ekki undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi hans eða að eignarinnar hafi ekki verið aflað í þeim tilgangi að selja hana aftur með hagnaði. Yfirskattanefnd tók fram að Bitcoin rafmyntin hefði gengið kaupum og sölum milli manna frá því að hún var sett á fót og var verð í viðskiptum í fyrstu ákvarðað á grundvelli framboðs og eftirspurnar. Rafmyntin sem slík hefði því alltaf haft eitthvað verðgildi og taldi yfirskattanefnd að það yrði að telja sem svo að frá upphafi hafi legið fyrir að fjárfesting eða gröftur eftir Bitcoin gæti skilað hagnaði. Þar sem að allar líkur hefðu staðið til þess að öflun rafmyntarinnar, hvort heldur með kaupum eða greftri, væri almennt gerð í hagnaðarskyni, þá taldi yfirskattanefnd að undantekningarreglan ætti ekki við þar sem í raun væri alltaf hagnaðarsjónarmið við fjárfestingu eða gröft á rafmyntinni.

Með vísan til ofangreinds þykir ljóst að hagnaður vegna sölu rafmyntar, a.m.k. Bitcoin, yrði skattlagður sem hagnaður á lausafé hjá einstaklingi. Hagnaðurinn væri því ekki undanskilinn tekjuskatti á grundvelli undantekningarreglu 2. mgr. 16. gr. tekjuskattslaga. Bent hefur verið á að þessi niðurstaða, þ.e. að flokka þetta til jafns á við sölu lausafjár, rekist á við framkvæmd virðisaukaskattslaga, en sala lausafjár ber virðisauka sem sala rafmynta hefur ekki gert. Þá virðast skattyfirvöld líta svo á að fjárfesting og gröftur rafmyntar sé gerður með hagnað í huga þar sem eignarinnar hafi verið aflað í þeim tilgangi að selja hana aftur með hagnaði. Vissulega skortir skýrari lagaákvæði í íslenskum lögum, þá einkum tekjuskattslögum, hvernig haga beri skattlagningu rafmynta en ákveðna vísbendinga er þó að finna í viðkomandi úrskurði yfirskattanefndar. Hinsvegar, út frá kröfum stjórnarskrárinnar um skýrleika skattheimilda, væri rétt að löggjafinn tæki þetta sérstaklega til skoðunar þannig að engum vafa sé undirorpið hvernig fara beri með skattlagningu hagnaðar vegna sölu rafmyntar.

 

Fylgstu með okkur

Contact us

Friðgeir Sigurðsson

Friðgeir Sigurðsson

Forstjóri, PwC Iceland

Sími 550 5366

Hide