Stjórnarhættir fyrirtækja

- Jón Sigurðsson, endurskoðandi

Skipulag fyrirtækja hefur í gegnum árhundruðin byggt á formföstum, skrifuðum og eða óskrifuðum reglum. Sem dæmi, byggði skipulag Rómverja mikið á skráðum heimildum sem að hluta til voru meitlaðar í stein. Að vísu voru Rómverjar herveldi, en mikilvægi þess að hafa skýrar samskipta- og hátternisreglur sýndu hversu megnugt skipulag þeirra var á sínum tíma. Margur fræðimaðurinn hefur leitt að því líkur að velgengi þeirra var að hluta til vegna þeirra stjórnarhátta sem þeir tileinkuðu sér þó svo að veldi þeirra hafi síðar fjarað út.

Í nútíma skipulagi stuðla góðir stjórnarhættir fyrirtækja að opnum og traustum samskiptum milli ólíkra eininga og/eða hagsmunaaðila. En hvað einkennir góða stjórnarhætti? Við þeirri spurningu er í raun ekkert eitt svar, stjórnarhættir eru í grunninn viðmið sem taka mið að lögum, reglum og eða viðurkenndum leiðbeiningum á hverjum stað. Sem dæmi hafa menning og venjur í viðkomandi landi mikil áhrif á túlkun og þróun stjórnarhátta fyrirtækja. Á Íslandi hafa ekki verið sett sértæk lög um stjórnarhætti, en vísun um venjur, form og viðmið er að finna í öllum þeim lagabálkum er móta umhverfi íslenskra fyrirtækja.  

Góðir stjórnarhættir hafa fest sig í sessi á undanförnum árum. Dæmi eru um að fyrirtæki sækist eftir útnefningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum en öflugt starf hefur verið hérlendis í að móta og viðhalda grunnviðmiðum góðra stjórnarhátta með útgáfu leiðbeininga um góða stjórnarhætti, núna síðast síðast með uppfærslu á leiðbeiningum í mars 2021. Útgáfa leiðbeininga hófst árið 2004, en að baki þeim standa Viðskiptaráð Íslands, Kauphöll Íslands /Nasdaq Iceland og Samtök atvinnulífsins. Útgáfa viðurkenninga fer eftir stöðluðu formi og heldur Stjórnvísi utan um veitingu slíkra viðurkenninga, en Stjórnvísi er félag sem stuðlar að auknum gæðum stjórnunar á Íslandi ásamt því að skapa vettvang fyrir umræður, tengslamyndun og þekkingu á sviði góðra stjórnarhátta.

Við hjá PwC höfum fylgt þessum þáttum með því að vera traustur ráðgjafi á sviði stjórnkerfa fyrirtækja með það að markmiði að auka getu þeirra á sviði góðra stjórnarhátta. Stjórnarhættir leggja grunn að ábyrgri stjórnun og ákvarðanatöku skipulagsheildar með það að markmiði að skapa varanleg verðmæti.

Stjórnir fyrirtækja starfa í umboði eigenda, en mikilvægt er að stjórnir leggi línur að formfestu á sviði stjórnunar. Vissulega er formfesta háð tilgangi og markmiði rekstrar, en mikilvægi þess að skapa skýran ramma um boðskipti, heimildir og leikreglur byggja á grunnþáttum stjórnarhátta.  Mikilvægt er að stjórnir séu fyrirmyndir í góðum stjórnarháttum því þannig smitar það niður í skipurit félaga. Skilvirkar og skýrar reglur auka líkur þess að markmið fyrirtækja náist á skilvirkan máta.

Til samræmis við leiðbeiningar á þessu sviði hafa fyrirtæki séð hag í að veita upplýsingar um stjórnarhætti, dæmi um slíkt er samantekt um stjórnskipulag fyrirtækja í formi stjórnarháttaryfirlýsinga, greinagóð upplýsingagjöf á heimasíðu fyrirtækja og í sumum tilfellum í annarri upplýsingagjöf og /eða í kynningarefni félaga.  Þau fyrirtæki sem ganga einna lengst í fylgni við stjórnarhætti sjá styrkleikamerki í að sækja vottun, frá óháðum aðilum, sem  fyrirmyndarfyrirtæki á sviði góðra stjórnarhátta. 

Einn af grunnþáttum skilvirkni er að meta árangur, PwC leggur mikið upp úr því að meta árangur skilvirkra stjórnarhátta með ýmsu móti. Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum um góða stjórnarhætti og meta fylgni fyrirtækis við góða framkvæmd jafnt og þétt. Mat á árangri er hægt að mæla með ýmsum hætti, en sjálfsmat stjórnar á eigin framkvæmd er mikilvægt á sama hátt og aðrar einingar sem starfa í umboði stjórnar geri slíkt hið sama. Dæmi um slíkar einingar er endurskoðunarnefnd, framkvæmdastjórn og aðrar nefndir eða ráð sem bera ábyrgð á skivirkni og eða eftirliti með rekstri.

Mikilvægt er að stjórn eininga vandi til verka með sjálfsmati á framkvæmd góðra stjórnarhátta við stjórnarborðið. PwC leggur mikið upp úr því að framkvæmd sjálfsmats sé framkvæmt af óháðum aðila a.m.k. á þriggja ára fresti, þannig næst dýpri greining á hæfi og hæfni stjórnar við að fylgja góðum stjórnarháttum og vera fyrirmynd í stjórnun á þeim rekstri sem hún ber ábyrgð á. Endurmenntun stjórnarmanna og nýjar stefnur á sviði stjórnarhátta eru þeir þættir sem stjórn þarf ávallt að vera meðvituð um. Eitt af markmiðum við sjálfsmat á árangri er að marka styrkleika, veikleika, tækifæri og ógnanir er steðja að stjórnun og fylgni við góða stjórnarhætti. Endurmenntun stjórnar og lykilstjórnenda í formi áhersluþátta vegna niðurstöðu mats á árangri er lykill að auka skilvirkni og hæfni til að ná markmiðum rekstrar til framtíðar.

 

Fylgstu með okkur