Laun stjórnarformanna í skráðum félögum, lífeyrissjóðum og ríkisfyrirtækjum eru á bilinu þrjár til 20 milljónir króna á ári að því er fram kemur í úttekt PwC og Attentus á launakjörum stjórna í völdum íslenskum fyrirtækjum. Athygli vekur að hjá lífeyrissjóðum gegna konur stjórnarformennsku í 70% tilvika en hlutfallið í skráðum félögum er einungis 12,5%.
Meðaltal og miðgildi árslauna stjórnarformanns í úrtakinu var 11 milljónir króna en launakjörin eru á breiðu bili. Töluverður munur er á launum eftir tegund fyrirtækja, þar sem stjórnarformenn í skráðum félögum eru með mun hærri laun en í lífeyrissjóðum. Skráð félög greiða stjórnarformönnum að meðaltali um 828 þúsund krónur á hvern fund en lífeyrissjóðir greiða að meðaltali um 327 þúsund krónur á hvern fund.
Við greiningu á launum stjórnarformanna er miðað við launabönd (e. salary bands) frá 10% neðsta gildis til 90% hæsta gildis.
Konur gegna stjórnarformennsku í 70% tilvika hjá lífeyrissjóðum, í 60% tilvika hjá ríkisfyrirtækjum en einungis 12,5% stjórnarformanna skráðra félaga eru konur. Þegar kemur að hlutfalli kvenna í stjórn er skipting mun jafnari en 50% stjórnarmanna lífeyrissjóða eru konur, 45% stjórnarmanna skráðra félaga eru konur og 44% stjórnarmanna ríkisfyrirtækja eru konur.
Samantekt PwC og Attentus byggir á gögnum frá 41 fyrirtæki; 25 skráðum félögum, 6 ríkisfyrirtækjum og 10 lífeyrissjóðum. Upplýsingarnar voru fengnar úr ársskýrslum og öðrum opinberum gögnum þessara fyrirtækja.
Samantektina má finna hér.
Nánari upplýsingar um könnunina og þjónustu PwC á sviði launagreininga og stjórnarhátta veita Hafsteinn Már Einarsson, deildarstjóri Markaðslauna, og Örn Valdimarsson, sviðsstjóri Fyrirtækjaráðgjafar.