Skip to content Skip to footer
Search

Stefnumarkandi úrskurður yfirskattanefndar

Stefnumarkandi úrskurður yfirskattanefndar

Í nýlegum úrskurði yfirskattanefndar, nr. 42/2022, var bindandi áliti ríkisskattstjóra snúið við og þar með einnig áralangri hefð á túlkun embættisins á skattlagningu við slit félaga líka. Málavextirnir voru þeir að íslenskt dótturfélag, sem var í 100% eigu félags í Lúxemborg, átti 23,15% hlut í félagi skráðu á Cayman-eyjum. Óskað var eftir bindandi áliti af hálfu ríkisskattstjóra þar sem fyrirhugað var að slíta íslenska dótturfélaginu með greiðslu til eina hluthafa félagsins, þ.e. móðurfélagsins í Lúxemborg, í formi hlutarins í Cayman félaginu. 

Ríkisskattstjóri gaf bindandi álit á skattalegum áhrifum þessara ráðstafana og taldi að líta bæri á afhendingu hlutarins í Cayman félaginu til móðurfélagsins í Lúxemborg sem sölu í skattalegu tilliti og þannig bæri að ákvarða íslenska dótturfélaginu skattskyldan söluhagnað. Íslenska félagið mótmælti þessu áliti ríkisskattstjóra og bar það undir yfirskattanefnd. 

Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að það skipti ekki máli við slit einkahlutafélaga þótt ákveðið væri að greiða hluthöfum að nokkru eða öllu leyti með öðrum verðmætum (s.s. með hlutum í félagi) heldur en peningum. Þá vék yfirskattanefnd að því að skattalög hefðu lengi vel kveðið á um að  úthlutun verðmæta við félagsslit skuli skattlögð samkvæmt reglum um arð, sbr. ákvæði tekjuskattslaga. Nefndin hrakti rökstuðning ríkisskattstjóra um að slitin hafi í för með sér skattlagningu söluhagnaðar í hendi íslenska dótturfélagsins enda hafi beinlínis verið horfið frá slíkri skattlagningaraðferð vegna félagsslita með lögum frá árinu 1998, þ.e. breytingarlögum á tekjuskattslögunum. Taldi nefndin að í því skyni breytti engu hvað ákvæði tekjuskattslaga um sameiningu og skiptingu félaga yfir landamæri kvæðu á um, enda væri hvorki um að ræða yfirtöku félags við millilandasamruna né skiptingu félags yfir landamæri.  Þá væri og engum ákvæðum til að dreifa í tekjuskattslögunum sem mæltu fyrir um hliðstæða skattalega meðferð og þar greinir vegna greiðslna til erlendra félaga í tilefni af slitum innlends félags. 

Með vísan til framangreinds breytti yfirskattanefnd áliti ríkisskattstjóra þannig að fallist var á það með íslenska dótturfélaginu að ekki bæri að líta á úthlutun til hluthafa félagsins við slit þess, þ.e. afhendingu hluta í félaginu á Cayman-eyjum, sem sölu í skattalegu tilliti sem hefði í för með sér skattlagningu söluhagnaðar í hendi íslenska dótturfélagsins.

 

Hvað þýðir þetta fyrir endurskipulagningu félaga?

Komi ekki til lagabreytinga vegna þessa úrskurðar þá ættu slit félaga sem liður í endurskipulagningu félagasamstæðu að vera mun fýsilegri kostur en áður var talið. Þá hefur ennfremur verið bent á að þetta varði ekki eingöngu endurskipulagningu félaga í náinni framtíð heldur geti úrskurðurinn einnig leitt til þess að þeir skattaðilar, sem hafa lent í sambærilegri skattlagningu og ríkisskattstjóri lagði upp með, óski eftir endurupptöku ákvörðunar með tilliti til leiðréttingar fyrri álagninga.
 

 

Fylgstu með okkur