Frá árinu 2021 hafa rekstrartekjur fyrirtækjanna vaxið úr 10,2 milljörðum króna upp í 26,6 milljarða. Árlegur meðalvöxtur er 38% yfir tímabilið, en 71% milli 2021 til 2023. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri samantekt PwC á baðlónum á Íslandi.
PwC hefur tekið saman ýmsar upplýsingar úr ársreikningum 10 valinna fyrirtækja sem reka baðlón á Íslandi fyrir tímabilið 2021 - 2024. Val fyrirtækjanna sem eru til skoðunar byggir á stærð með tilliti til veltu.
Tilgangur samantektarinnar er að gefa lesendum heildstæðan samanburð á rekstri og arðsemi fyrirtækjanna. Ekki er verið að greina frá öllum þeim fyrirtækjum sem reka baðlón. Upplýsingarnar gætu náð yfir aðra starfsemi, svo sem hótel- og veitingarekstur sem er ekki aðgreint eða fjallað um sérstaklega í samantektinni.
Markaður baðlóna á Íslandi er samkeppnismikill vegna ört vaxandi vinsælda. Helstu áskoranir á markaðnum eru samkeppni, álag á innviði vegna fjölda ferðamanna og árstíðabundin eftirspurn.