fish farm

Mikil uppbygging í fiskeldi á Íslandi

Á síðustu þremur árum hafa fyrirtæki í fiskeldi fjárfest yfir 72 milljarða króna og boðaðar fjárfestingar í greininni nema alls um 400 milljörðum króna. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri samantekt PwC um lykilstærðir í fiskeldi á Íslandi.

piece of salmon

Undanfarin tíu ár hefur útflutningsverðmæti fiskeldis áttfaldast og nam 54 milljörðum króna árið 2024. Ef boðuð áform um áframhaldandi fjárfestingar í greininni ganga eftir, má búast við að útflutningsverðmæti fiskeldisafurða haldi áfram að aukast svo um munar á komandi árum.

Samantekt PwC tekur til tíu fyrirtækja í greininni en þau standa fyrir meginþorra þeirrar framleiðslu og uppbyggingar sem um ræðir. Samanlögð velta fyrirtækjanna á liðnu ári nam 55,8 milljörðum króna og samanlögð framleiðsla nam 52 þúsund tonnum. Sá árangur er afrakstur mikillar uppbyggingar og fjárfestinga undanfarin ár. Sú uppbygging hefur haldið áfram af miklum krafti en á síðsta ári nam fjárfesting fyrirtækjanna samtals um 28 milljörðum króna, og síðastliðin þrjú ár nemur fjárfestingin um 72 milljörðum króna.

Uppbygging og vöxtur síðustu ára hefur einkum verið í sjókvíaeldi og megnið af framleiðslu og útflutningsverðmætum kemur úr sjókvíaeldi. Um þessar mundir á sér stað mikil uppbygging í landeldi og stærstur hluti fjárfestingar á síðasta ári er hjá fyrirtækjum í landeldi. Miðað við fram komnar opinberar upplýsingar um fyrirhugaðar fjárfestingar og framleiðslumagn er það mat PwC að heildarfjárfesting boðaðra verkefna sé á bilinu 360-400 milljarðar króna.

Í samantekt PwC má sjá að sú mikla uppbygging sem þegar hefur átt sér stað hefur að verulegu leyti verið fjármögnuð með eigin fé en samtals nemur eigið fé fyrirtækjanna í samantektinni 139 milljörðum króna í árslok 2024.

 

Milljón á tonn

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér

(PDF of 435.36KB)
Fylgstu með okkur